Book a Room Now!

Loading...

Hvað er í húfi?

14.02.2018

Millilandaflug um Akureyrarflugvöll hefur verið mikið í umræðunni upp á síðkastið, eftir að þota frá bresku ferðaskrifstofunni Super Break þurfti í tvígang að snúa til Keflavíkur vegna aðflugsskilyrða á vellinum. Nú er búið að tryggja það að fyrir næsta vetur verði kominn upp aðflugsbúnaður við hæfi sem ætti að minnka líkurnar á því að ekki sé hægt að lenda í slæmu skyggni.

Eins og alltaf í þessari umræðu hafa ýmsir lagt orð í belg. Alltaf er ákveðinn hópur sem bendir á að aðflugsskilyrði séu ómöguleg í Eyjafirði og frekar eigi að huga að uppbyggingu millilandaflugvalla í Aðaldal eða Sauðárkróki. Vissulega held ég að færa megi rök fyrir því að aðflugsaðstæður séu hagstæðari á þessum tveimur stöðum en á Akureyri. En um það snýst ekki málið. Ákvörðun hefur verið tekin um uppbyggingu Akureyrarflugvallar fyrir millilandaflug þrátt fyrir að framkvæmdir við flughlað og aðflugsbúnað hafi tafist fram úr hófi og er það miður.

En hvað er í húfi? Hvað er í húfi fyrir ferðaþjónustuna á Norðurlandi? Mér finnst að umræðan um það hafi fallið skuggann af allskonar tæknilegri umræðu um flugvöllinn. Það að fá hingað inn beint millilandaflug getur skipt sköpum fyrir atvinnugreinina á svæðinu og þar af leiðandi uppbyggingu atvinnutækifæra og samfélaga víða um Norðurland.

Ég leyfi mér að fullyrða að engin uppbygging út frá byggðalegu sjónarmiði, eða sértækum byggðaaðgerðum, hefur skilað meiri árangri en uppbygging og uppgangur ferðaþjónustunnar. Í hvaða þorpi sem er, í hvaða samfélagi sem er, hafa allt í einu sprottið upp þjónustufyrirtæki fyrir ferðamenn síðustu árin. Og það að mestu án beinnar aðkomu opinberra aðila. Það hafa risið upp gistihús, veitingastaðir, kaffihús og afþreyingarmöguleikar ýmiskonar. Allt saman kærkomið í byggðum sem hafa barist hafa fyrir tilverurétti sínum jafnvel í áratugi.

Breytt ferðahegðun erlendra ferðamanna er í þessu sambandi mikið áhyggjuefni. Rannsóknir sýna að þeir stoppi styttra við á landinu og eyði minni pening. Það þýðir einfaldlega að færri og færri kjósa að ferðast út á land, utan suður- og suðvesturlands. Ferðamenn koma inn um einu gáttina inn í landið sem notið hefur uppbyggingar og dvelja á umræddu svæði í þá daga sem dvölin stendur á Íslandi. Nýting gistihúsa og hótela á þessu svæði er stjarnfræðileg í samanburði við nýtingu annarsstaðar á landinu.

Afkoma ferðaþjónustunnar á „köldu svæðunum,“ Austurlandi, Norðurlandi og Vestfjörðum er í engu samræmi við stöðuga fjölgun ferðamanna til Íslands undanfarin ár. Þessi svæði þurfa sinn skerf af kökunni. Ferðir Super Break ferðaskrifstofunnar sýna svo ekki verður um villst, að það er hægt að ná fram stýringu á ferðamannstraumi inn til landsins. Svokölluð „dreifing ferðamanna“ er oft í umræðunni og margir staldra gjarnan við það að það sé ekki hægt að segja ferðamönnum hvert þeir eigi að fara, það sé eitthvað sem þeir ákveði sjálfir. En með því að hugsa út fyrir kassann, rétt eins og Super Break hefur gert t.d. með því að bjóða upp á brottfarir frá mismunandi flugvöllum í Bretlandi er klárt mál að það er hægt að búa til sterkari markaðssvæði á umræddum svæðum. Nú þegar geta bæði Akureyrarflugvöllur og Egilsstaðaflugvöllur tekið á móti farþegaþotum. Það þarf að efla þessa flugvelli gera þá í stakk búna til að þjóna bæði farþegum og flugfélögum. Eins og staðan er virðast yfirvöld hafa sofið á verðinum og ekki unnið í takti við heimamenn á þessum stöðum við uppbygginguna. Það er erfitt að fá fjármagn í nauðsynlegar endurbætur, ISAVIA nýtir ekki hluta af sínum hagnaði til að byggja upp aðra flugvelli en í Keflavík og kalla eftir skýrri eigendastefnu stjórnvalda eigið það að breytast.

En í húfi eru sterk byggðasjónarmið sem felast í áframhaldandi uppbyggingu ferðaþjónustu úti á landi. Það má ekki klúðra þessu gullna tækifæri fyrir landsbyggðirnar að styrkja atvinnulíf og þar með leggja grunninn að aukinni hagsæld og sterkari tilverurétti.

Þetta snýst ekki bara um flugvellina, heldur líka samfélögin sem geta notið góðs af uppbyggingu þeirra. Þar finnst mér oft vanta upp á ákveðinn skilning og sanngjarna umfjöllun. 

TripAdvisor

Events

Dato Begivenhed Klokken

Travel Blog

Hvað er í húfi?

Millilandaflug um Akureyrarflugvöll hefur verið mikið í umræðunni upp á síðkastið, eftir að þota frá bresku ferðaskrifstofunni Super Break þurfti í tvígang að snúa til Keflavíkur vegna aðflugsskilyrða á vellinum. Nú er búið að tryggja það að fyrir næsta vetur verði kominn upp aðflugsbúnaður við hæfi sem ætti að minnka líkurnar á því að ekki sé hægt að lenda í slæmu skyggni.

Læs mere

Lamb Inn hlýtur viðurkenningu frá Markaðsráði kindakjöts

Föstudag 31. mars s.l. veittu íslenskir sauðfjárbændur viðurkenningar þeim samstarfsveitingahúsum sem þykja hafa skarað fram úr við að kynna íslenskt lambakjöt fyrir erlendum ferðamönnum. Viðurkenningin ber enska heitið „AWARD OF EXCELLENCE“ sem rímar við annað markaðsefni sauðfjárbænda sem gagngert er beint til erlendra ferðamanna og er á ensku.
Lamb Inn var einn þeirra 10 veitingastaða á landinu sem hlaut þessa viðurkenningu að þessu sinni.

Læs mere